Hópsigling í Nauthólsvík

Hugmyndin er að leggja af stað um morguninn, laugardaginn 12. júlí klukkan 10:00, en öllum er frjálst að velja sína leið og nýta daginn á sinn hátt. Siglingaleiðin og áfangastaðurinn er valin með það í huga að allir ættu að geta tekið þátt. Einnig er hægt að nota eftirmiðdaginn í að fara í sjóböð, heita pottinn og gufuna á Ylströndinni.

Klukkan 18:00 verður kveikt á grillinu í húsnæði kænudeildar við Nauthólsvík. Best er að fólk komi sjálft með sín matvæli eftir fjölda og smekk áhafnarmeðlima, en félagið skaffar aðstöðuna, grillið, glös, diska osfrv.

Öryggisbátur kænudeildar getur nýst í að skutla fólki til og frá skútunum sínum, sem verða við ankeri á Foggvoginum, nálægt Nauthólsvík, en auðvitað eru þeir sem eiga léttabáta hvattir til að taka þá með.

Fossvogur er eitt allra besta ankerislægi við Ísland og það er mikil synd að eyðileggja svæðið með brú. Framkvæmdir eru samt byrjaðar þannig að þetta verður líklega síðasta sumarið sem hægt er að ankera seglskútum í Fossvogi.

Þessi hópsigling er líka gott tækifæri fyrir þá sem nota ankerið sjaldan og vilja prófa að gista um borð, í öruggu umhverfi og í góðra vina hópi. Sumir skútusiglingamenn nota ankerið mjög oft, og aðrir sjaldan, en þarna verður hægt að prófa sig áfram og fá góð ráð hjá reyndu siglingafólki. Að leggjast við ankeri á öruggan hátt er listgrein sem kemur ekki nema með æfingunni.

Next
Next

Hópsigling til Hafnarfjarðar