Reglur
Bryggjureglur
Kafli I. Bryggjustæði
Bryggjustæði eru eingöngu fyrir skútur í eigu félagsmanna, eða í sameiginlegri eigu a.m.k. eins félagsmanns. Stjórn Brokeyjar getur veitt sérstaka undanþágu frá þessu ákvæði (t.d. úthlutað stæði til báts annars siglingafélags).
Flotbryggjan við Ingólfsgarð (næst Hörpu) er fyrir félagsmenn en ekki gestaskútur. Aðstaða fyrir gestaskútur er vestan megin, við trébryggju og öldubrjót.
Flotbryggjan við Ingólfsgarð er fyrir seglskútur en ekki vélbáta. Stjórn Brokeyjar getur gert tímabundna undanþágu á þessu ef það eru laus pláss.
Leitast er við að hafa skútur í sömu stæðum og sumarið áður, en bryggjustjóri getur úthlutað nýjum stæðum ef þurfa þykir. Skútur sem höfðu stæði frá sumrinu áður hafa forgang að stæðum næsta sumar.
Félagsmenn geta sótt um bryggjustæði og fara þá á biðlista.
Bryggjustjóra er heimilt að endurúthluta stæði sem er ekki í notkun. Bryggjustjóri ákveður röðun báta í stæði við flotbryggjuna og má breyta úthlutun sinni ef þurfa þykir.
Bryggjustæði í aðstöðu Brokeyjar eru ætluð skútum sem eru skráðir skemmtibátar og eru til einkanota, ferðalaga, siglingakeppna eða félagsstarfsemi (þ.e. ekki skútum sem eru t.d. leigðar í atvinnurekstri).
Skútur við Ingólfsgarð þurfa að vera tryggðar (ábyrgðartrygging) og með gilt haffærisskírteini (bátar yfir 6m). Það er á ábyrgð eigenda að tryggja að landfestar séu af viðunandi gæðum og sverleika. Brokey tryggir ekki eigur félagsmanna. Það á ábyrgð þeirra sjálfra að tryggja eignir sínar og sig sjálfa gegn tjóni sem hlotist geta á umráðasvæði félagsins. Félagsmaður er ábyrgur fyrir því tjóni sem hann eða gestir á hans vegum valda hvort sem er á öðrum bátum, höfn eða öðrum mannvirkjum í eigu félagsins. Um skaðabótaskyldu vegna skemmda á höfn, mannvirkjum hennar eða áhöldum fer eftir almennum skaðabótareglum.
Hægt er að vísa skútum úr bryggjustæði ef a) bryggjugjöld, félagsgjöld eða lyklagjöld eru ógreidd, b) ef hætta er á að báturinn valdi skemmdum á bryggju eða öðrum bátum c) eigandi segir sig úr félaginu, verði brottvísað úr félaginu eða ítrekað fylgi ekki tilmælum bryggjustjóra.
Kafli II. Lyklar
Félagsmaður sem á skútu (eða hlut í skútu) við Ingólfsgarð getur fengið einn lykil að hliði flotbryggjunnar og salernisaðstöðu.
Til að fá lykil þarf að vera búið að greiða lyklagjald, félagsgjald og bryggjugjöld (sjá verðskrá). Bryggjustjóri getur óskað eftir afriti af mælibréfi, tryggingavottorði og haffærisskirteini (bátar yfir 6m).
Bryggjustjóri úthlutar lyklum frá og með 1. apríl.
Ef félagsmaður týnir lykli sínum þarf að endurgreiða lyklagjald.
Kafli III. Austurbugt er sumarhöfn
Veturseta í aðstöðu Brokeyjar er bönnuð. Allar skútur/bátar þurfa að vera farnar fyrir veturinn eigi síðar en 1. nóvember ár hvert og mega snúa aftur í aðstöðuna 1. apríl ár hvert, fyrir sumarið.
Stjórn Brokeyjar áskilur sér rétt til að láta færa skútur sem eru skildar eftir framyfir 1. nóvember, á kostnað eigenda.
Bryggjureglur tóku gildi þann 16. apríl 2024