Félagið
Stjórn Brokey 2025
Aðalmenn í stjórn
Gunnar Sigurðsson, formaður
Þórarinn Stefánsson, meðstjórnandi
Guðjón Magnússon, meðstjórnandi
Karna Sigurðardóttir, meðstjórnandi
Áki Ásgeirsson, meðstjórnandi
Varamenn í stjórn
Atli Magnússon
Ásta Vilhjálmsdóttir
Deildarstjóri kænudeildar
Gunnar Kristinn Óskarsson
Lög fyrir Siglingafélag Reykjavíkur – Brokey
I. kafli
Nafn félagsins, tilgangur o.fl.
1. grein
Félagið heitir Siglingafélag Reykjavíkur – Brokey. Aðsetur þess og varnarþing er í Reykjavík.
2. grein
Markmið félagsins er að iðka siglingaíþróttir, örva áhuga fólks á siglingum og vatnaíþróttum almennt og stuðla að bættri aðstöðu til iðkunar þeirra.
3. grein
Félagi verður sá einn, sem skráður er í félagatal félagsins. Félagið er opið öllum sem áhuga hafa á að starfa innan þess að íþrótta- og félagsmálum. Þeir gerast sjálfkrafa félagar sem æfa með félaginu, en aðrir skrá sig á þar til gerð eyðublöð, sem mega vera rafræn, og hafa greitt tilskilin gjöld.
II. kafli
Deildir félagsins
4. grein
Félagið skal starfa í deildum, s.s. kjölbátadeild og kænudeild
5. grein
Deildarstjórar eru tilnefndir eða skipaðir af stjórn. Deildarstjórar hafa rétt til setu á stjórnarfundum með málfrelsi og tillögurétt. Sé deildarstjóri ekki tilnefndur eða skipaður fer stjórnin með hlutverk hans.
6. grein
Hlutverk deildarstjóra skal vera að annast daglegan rekstur deildarinnar, þ.e. halda mót, sjá um þjálfun og kennslu og annað sem lýtur að eðlilegum framgangi hennar í samráði við stjórn félagsins. Deildarstjóri skal leggja fram starfs- og rekstraráætlun fyrir stjórn til samþykktar.
III. kafli
Aðalfundur félagsins
7. grein
Aðalfundur félagsins fer með æðsta vald í málefnum félagsins og setur því nauðsynleg lög. Stjórn Siglingafélags Reykjavíkur – Brokeyjar fer með æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda, setur reglur um öryggismál, keppnir og aðra þætti í starfi félagsins og framfylgir þeim. Aðalfund félagsins skal halda í janúar ár hvert og skal hann boðaður með minnst 14 daga fyrirvara með sannalegum hætti, s.s. með birtingu á vef félagsins og netpósti. Aðalfundur er lögmætur ef löglega hefur verið til hans boðað. Á aðalfundi skal kjósa sérstakan fundarstjóra og fundarritara. Kjörgengi og kosningarétt hafa allir lögráða félagsmenn sem eru skuldlausir við félagið. Fundur má fara fram rafrænt að hluta eða öllu leiti.
8. grein
Dagskrá aðalfundar:
1. Setning aðalfundar og kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar lögð fram.
3. Skýrslur nefnda lagðar fram.
4. Staðfestir reikningar sem samþykktir hafa verið af stjórn lagðir fram og útskýrðir.
5. Umræða um skýrslu stjórnar, nefnda og reikninga.
6. Reikningar bornir upp til samþykktar.
7. Lagðar fram tillögur að lagabreytingum og bornar undir atkvæði.
8. Kosning formanns
9. Kosning fjögurra meðstjórnenda og tveggja varamanna sem skipta með sér verkum í samræmi við 9. grein.
10. Kosning tveggja skoðunarmanna.
11. Ákvörðun félagsgjalda.
12. Önnur mál.
13. Fundarslit.
9. grein
Stjórn félagsins skipa formaður, sem kosinn er sérstaklega, og fjórir meðstjórnendur sem skipta með sér verkum varaformanns, gjaldkera og ritara. Formaður er kosinn sérstaklega til eins árs í senn. Meðstjórnendur skulu kosnir til tveggja ára, þó þannig að aðeins skal kosið um tvo ár hvert. Árlega skal kjósa tvo menn í varastjórn, varamenn taka sæti í stjórn í þeirri röð sem þeir eru kjörnir.
10. grein
Reikningsár félagsins er almanaksárið.
11. grein
Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist til stjórnar eigi síðar en viku tíu dögum fyrir aðalfund. Lagabreytingartillögur skulu gerðar félagsmönnum aðgengilegar eigi síðar en sjö dögum fyrir aðalfund. Þær öðlast gildi ef þær eru samþykktar með 2/3 greiddra atkvæða. Auðir og ógildir seðlar teljast ekki með.
12. grein
Atkvæði á aðalfundi skal greiða með handauppréttingu nema einn eða fleiri félagar æski leynilegrar atkvæðagreiðslu.
IV. kafli
Starfsemi félagsins
13. grein
Stjórn félagsins fer með æðsta vald í málum félagsins milli aðalfunda. Falli atkvæði jafnt innan stjórnar félagsins, ræður atkvæði formanns.
14. grein
Undirskrift að minnsta kosti tveggja stjórnarmanna þarf til þess að skuldbinda félagið.
Óheimilt er að veðsetja eigur félagsins nema með samþykki meirihluta stjórnar félagsins og allar meiriháttar framkvæmdir á vegum deilda skulu samþykktar af stjórn félagsins.
15. grein
Stjórn félagsins skal setja reglur um starf og eigur félagsins. Sérstakar reglur skal setja ef fleiri en ein deild nýtir sömu aðstöðu.
16. grein
Almennan félagsfund skal halda þegar stjórnin sér ástæðu til eða ef minnst 10 félagsmenn óska þess með skriflegri áskorun til stjórnar.
17. grein
Einfaldur meirihluti ræður úrslitum í atkvæðagreiðslu á aðalfundi og félagsfundum, nema við lagabreytingar, en þá þarf 2/3 atkvæða.
V. kafli
Ýmis ákvæði
18. grein
Félagar skuldbinda sig til þess að hlíta lögum og reglum félagsins. Stjórn félagsins getur sett félaga sem gerast sekir um vítavert hátterni í fyrirvaralaust æfinga-, keppnisbann á vegum félagsins. Stjórn félagsins er heimilt að víkja félaga úr félaginu, enda sé brottvikningin studd rökum. Félagi, sem þannig er vikið úr félaginu, getur krafist þess að stjórnin kalli saman félagsfund þar sem mál hans verði rætt.
19. grein
Á aðalfundi má kjósa félaginu heiðursformann ef 2/3 viðstaddra félagsmanna samþykkja kjörið. Heiðursformaður skal hafa starfað í þágu félagsins um langan tíma og njóta almennrar virðingar félagsmanna fyrir störf sín. Stjórn félagsins getur falið heiðursformanni trúnaðarstörf í þágu félagsins. Heiðursformaður greiðir ekki félagsgjöld, en nýtur allra réttinda sem félagsmenn njóta.
20. grein
Stjórn félagsins getur útnefnt heiðursfélaga á aðalfundi eða sérstökum félagsfundi í viðurkenningarskyni fyrir störf í þágu siglingaíþróttarinnar. Heiðursfélagi greiðir ekki félagsgjöld en nýtur allra réttinda sem félagsmenn njóta.
21. grein
Tillögur um að leggja félagið niður má aðeins taka fyrir á lögmætum aðalfundi. Til þess að samþykkja þá tillögu, þarf minnst ¾ hluta atkvæða. Hafi slík tillaga verið samþykkt skal gera grein fyrir henni í fundargerð aðalfundar og tillaga látin ganga til næsta auka aðalfundar sem stjórn félagsins skal boða til með lögmætum hætti. Verði tillagan þá samþykkt aftur er það fullgild ákvörðun um að leggja félagið niður. Sé félagið þannig löglega lagður niður skulu eignir þess renna til Íþróttabandalags Reykjavíkur.
22. grein
Lög þessi öðlast gildi þegar þau hafa verið samþykkt af ÍSÍ og ÍBR.
Samþykkt á aðalfundi 9. mars 1996
Breytt á aðalfundi 11. mars 2002
Breytt á aðalfundi 13. febrúar 2003
Breytt á aðalfundi 16. febrúar 2006
Breytt á aðalfundi 13. nóvember 2008
Breytt á aðalfundi 30. janúar 2016
Breytt á aðalfundi 26. janúar 2019
Breytt á aðalfundi 16. febrúar 2025